Innlent

Skuttogari vísaði á ný eldfjöll

Myndir úr fjölgeisladýptarmælingunum sýna hið nýja landslag afar vel.mynd/hafró
Myndir úr fjölgeisladýptarmælingunum sýna hið nýja landslag afar vel.mynd/hafró

Leirkeilur eða eðjueldfjöll hafa líklega fundist í fyrsta skipti hér við land í nýafstöðnum kortlagningarleiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar. Fundur þessa náttúrufyrirbæris byggir á athyglisgáfu skipstjórans á frystitogaranum Þerney RE-101.

Fyrirbærin fundust á 900 til 1.300 metra dýpi við rætur landgrunnsins um hundrað sjómílur vestsuðvestur af Snæfellsnesi. Fjöllin eru fjörutíu til 200 metra há. Á mælingasvæðinu, sem fengið hefur heitið Keiludjúp, fannst einnig 450 metra hátt reglulega lagað fjall með tiltölulega flötum gíg á toppinum. Fjallið er nánast smækkuð útgáfa af Herðubreið og hefur fengið heitið Mardöll.

Skipstjóri á frystitogaranum Þerney lét Hafrannsóknastofnunina vita á sínum tíma af einhverju óvenjulegu sem hann sá á dýptarmæli skipsins á þessu sama svæði og gaf upp staðsetninguna. Í ljós kom að Þerney hafði siglt beint yfir eina af leirkeilunum sem fundust nú, þá sem nefnd er Litla-Keila.

Leiðangurinn var frumkönnun á nýju hafsvæði með fjölgeisladýptarmælingum. Markmiðið var að kortleggja þekktar og mögulegar veiðislóðir. Alls voru kortlagðir um 2.700 ferkílómetrar af hafsbotninum. Í síðari hluta leiðangursins voru svo kortlagðir um 2.000 ferkílómetrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×