Lífið

Ekkert bílasalavæl frá SSSól

Mættir í Stúdíó Sýrland á gömlu rokkbomsunum til að taka upp nýtt efni sem stendur á gömlum merg.fréttablaðið/arnþór
Mættir í Stúdíó Sýrland á gömlu rokkbomsunum til að taka upp nýtt efni sem stendur á gömlum merg.fréttablaðið/arnþór

Helgi Björnsson er að ræsa hljómsveitina SSSól sem hann líkir við Kröflu. Og sér við Ferguson. Hann hefur úr slíkri breidd að spila að hann getur skipt inn á í bandið eftir hentugleika.

„Það er búið að setja startkapla á skrímslið. Ræsa Kröflu. Við erum að taka upp nýtt efni," segir Helgi Björnsson, söngvari SSSólar.

Fréttablaðið náði tali af Helga í alveg banastuði í Stúdíó Sýrlandi þar sem SSSól var að taka upp nýtt lag. Viðtalið sveiflaðist milli þess að Helgi svaraði blaðamannslegum spurningum og þess að hann syngi hendingar úr þessu nýjasta lagi sem verið var að taka upp og heitir Fullorðinn en meiningin er að það fari í spilun strax í dag. Frumflutt í morgunþætti Simma og Jóa á Bylgjunni í dag: „Dansa frá mér allt vit," syngur Helgi og upplýsir jafnframt að þetta sé gamall texti úr smiðju Davíðs Þórs Jónssonar við Stónslegan slagara eftir sig sjálfan. Helgi fer ekki í grafgötur með hvaðan áhrifin eru. „... á morgun er ekkert samviskubit... Ég er fullorðinn, ef mér sýnist fer ég út að leika mér... Já, sko, þetta er alvöru „rock'n'roll". Ekkert bílasalavæl eins og oft hefur heyrst á þessum popplendum."

Helgi er í essinu sínu í stúdíóinu og yfirlýsingaglaður eftir því. Vogar sér jafnvel inn á jarðsprengjusvæði sem það að texti lagsins fjalli meðal annars um inngróið en óþarft samviskubit nútímakarlsins. SSSól hefur verið lengi að og Helgi er ánægður með sitt band. Líkir sjálfum sér við Ferguson stjóra Manchester United í þeim skilningi að hann búi við slíka breidd afbragðs hljóðfæraleikara að hann geti skipt inná eftir þörfum. SSSól ætlar að koma fram í Officeraklúbbnum í kvöld og er að bóka gigg vítt og breitt um landið. Njálsbúð 4. júlí - sveitaball eins og þau voru best fyrir tíu eða tuttugu árum.

Þegar fitjað er upp á því við Helga hvort sveitaböllin tilheyri liðinni tíð er það nánast eins og að spyrja Þorstein frá Hamri hvort ljóðið sé ekki örugglega dautt? „Þetta hefur ekki brugðist í þau skipti sem SSSól hefur poppað upp. Þá streymir fólkið inn. Þó ekki sé búið að taka mynd af hljómsveitinni í níu ár. Fyrr en nú," segir Helgi og hlær. En neitar því þó ekki að vissulega hafi komið ákveðið bakslag í sveitaballamenninguna. „Ég held jafnvel að þetta „meika"ða-í-útlöndum" hafi gert hinn íslenska alþýðulistamann eitthvað feiminn. Hann hafi farið inní sig í stað þess að láta ljós sitt skína af festu og einurð. En með breyttri fjárhagsstöðu þjóðarinnar og fækkandi utanlandsferðum hlýtur alþýðulistamaðurinn að fá aukna trú á mátt sinn og megin... Ég þarf ekki að biðja neinn um leyfi nema sjálfan mig," syngur Helgi Björnsson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.