Innlent

Þrotabú Baugs krefst riftunar á greiðslu til dótturfélags SPRON

Þrotabú Baugs hefur krafist riftunar á yfir 100 milljóna króna greiðslu til dótturfélags SPRON.Talið er að kröfuhöfum hafi verið mismunað með greiðslunni.

Skuldir Baugs við SPRON námu 650 milljónum króna auk þess sem skuld vegna peningamarkaðssjóða bankans námu 2 milljörðum. Við uppgjör á sjóðunum tók bankinn yfir skuldabréfin sem voru gefin út af Baugi og voru í sjóðunum. Við það var heildarskuld Baugs við SPRON tæpir 3 milljarðar. SPRON gekk nokkuð hart fram í innheimtuaðgerðum og til að forða því að gert yrði fjárnám í Baugi greiddi félagið yfir 100 milljónir inn á reikning dótturfélaga í eigu SPRON.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur þrotabú Baugs nú farið fram á riftun á þessari greiðslu. Talið er greiðslan hafi verið óeðlileg þar sem félagið var ekki greiðsluhæft á þessum tíma og að ójafnræði hafi ríkt á milli kröfuhafa. Þrotabúið verður að tryggja að allir kröfuhafar sitji við sama borð. Þar sem greiðslan var til dótturfélaga SPRON sem sum hver eru í góðum rekstri er ekki útilokað að þrotabúið geti innheimt þessa greiðslu en skilanefnd SPRON vinnur nú að því að selja eignir bankans.

Jón Ásgeir Jóhannesson vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband við hann. Þess ber að geta að Jón Ásgeir er aðaleigandi 365 miðla sem rekur meðal annars Stöð 2 og Visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×