Innlent

Orkan á Hengilssvæðinu umfangsmeiri en talið hefur verið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hellisheiðarvirkjun Orkuveitu Reykjavíkur. Mynd/Vilhelm
Hellisheiðarvirkjun Orkuveitu Reykjavíkur. Mynd/Vilhelm
Nú rannsóknarborhola á Hellisheiði gefur sterka vísbendingu um að orkan á Hengilssvæðinu sé mun umfangsmeiri auðlind en talið hefur verið. Holan er svo öflug að hún gæti séð sautján þúsund manna byggð fyrir rafmagni.

Nýja rannsóknarholan er við Hverahlíð, sunnan við þjóðveginn yfir Hellisheiði. Hún hefur mælst sem svarar til 15 til 17 megavatta í raforkuframleiðslu, að því er Orkuveita Reykjavíkur greinir frá, sem þýðir að þessi eina hola gæti þjónað þörfum allrar byggðar vestan Snorrabrautar í Reykjavík. Holan er nú látin blása gufu meðan ítarlegar mælingar fara fram á henni.

Við vinnslu jarðhitans á Hengilssvæðinu hafa áður komið fram vísbendingar, sem benda til þess að jarðhita sé að finna mun sunnar á svæðinu en áður var talið. Þessi nýja hola styrkir trú vísindamanna um að svo sé. Holan er mjög kröftug og er afl hennar um þrefalt meðalafl háhitaborhola á Hengilssvæðinu.

Orkaveitan segir að á næstu vikum og mánuðum muni það skýrast betur hvort jarðhitinn á Hengilssvæðinu sé í raun mun umfangsmeiri auðlind en vísindamenn ætla í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×