Innlent

Heildareignir 629 milljarðar

ÍSlandsbanki Í tilkynningu frá bankanum segir að stofnefnahagsreikningurinn endurspegli „ákveðið afturhvarf til hefðbundinnar bankastarfsemi“. fréttablaðið/heiða
ÍSlandsbanki Í tilkynningu frá bankanum segir að stofnefnahagsreikningurinn endurspegli „ákveðið afturhvarf til hefðbundinnar bankastarfsemi“. fréttablaðið/heiða

Heildareignir Íslandsbanka eru 629,26 milljarðar króna, samkvæmt stofnefnahagsreikningi bankans sem birtur var í gær.

Inni í þessari tölu er lausafé bankans, 53 milljarðar, útlán til viðskiptavina, 477 milljarðar, og ógreitt hlutafjárloforð upp á rúma 64 milljarða.

32 prósent útlána eru til einstaklinga, sextán prósent til sjávar­útvegsfyrirtækja, fjórtán prósent til fasteignafélaga, ellefu til fjárfestingar­félaga og 27 prósent til annarra ónefndra atvinnugreina. Skuldir eru 564,26 milljarðar og hlutafé 65 milljarðar, samtals 629,26 milljarðar.

Meðal skulda eru innlán fyrir­tækja og einstaklinga, samtals 372 milljarðar. Innlán frá fjármálastofnunum nema 52 milljörðum. Aðrar skuldir 83 milljarðar.

Inni í skuldatölunni er einnig skuldabréf upp á 52 milljarða, sem fellur niður kjósi kröfuhafar að eignast 95 prósent í Íslandsbanka.

Í tilkynningu frá bankanum segir að hann hafi „náð að breyta umtalsverðum hluta óverðtryggðra skulda sinna í verðtryggðar skuldir“.

Einnig að eignirnar séu „að verulegu leyti í erlendri mynt en skuldirnar eru aðallega innlán í ISK“.

Þá segir að nokkur hluti útlána bankans í erlendri mynt sé til fólks með tekjur í krónum. Þau séu „að verulegu leyti meðhöndluð sem útlán í ISK“ segir þar, án þess að það sé útskýrt nánar. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×