Innlent

Ögmundi augljóslega stillt upp við vegg

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir ríkisstjórnina vera komna í öngstræti og verði í raun að víkja. Hann furðar sig á því að Ögmundur Jónasson hafi sagt af sér ráðherraembætti og gefur sér að hann hafi verið beittur þrýstingi. Núna sé eini maðurinn sem er í takti við þjóðina í Icesavemálinu farinn úr ríkisstjórn.

„Í fyrsta lagi er mér ómögulegt að skilja hvað þetta á að leysa vegna þess að sá ráðherrann sem þarna á í hlut er áfram á móti hugmyndum forsætisráðherra um það hvernig halda skuli á málum. Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin þarna misst fyrir borð eina ráðherrann sem er í takti við meirihluta þjóðarinnar í þessu máli," segir Bjarni um afsögn Ögmundar.

„Ég gef mér það að honum hafi í reynd verið vikið úr ríkisstjórninni. Það er ómögulegt að sjá hversvegna heilbrigðisráðherra ætti að segja af sér við þessar aðstæður og augljóst að honum hefur verið gert ómögulegt að sitja áfram," segir Bjarni.

Aðspurður hvernig hann lesi í framhaldið segir Bjarni ekki gott að segja hvernig haldið verði á spilum nú. „Það er hinsvegar áhyggjuefni hversu einbeitt ríkisstjórnin og forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru í að vilja ganga að frekari kröfum Breta og Hollendinga í þessu máli frekar en þingið hefur ákveðið í stað þess að standa í lappirnar. Ríkisstjórnin sem gengur í tvígang svona freklega gegn þingvilja í afdrifaríku máli eins og þessu verður að víkja."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×