Innlent

Næstu skref móta framtíðina - 13 þingmenn vilja þjóðaratkvæði

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að næstu skref sem þjóðin taki muni móta framtíð hennar. Þrettán þingmenn Framsóknarflokks og Borgarahreyfingar vilja að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu eins fljótt og auðið er um hvort staðfesta eigi ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna.

Höskuldur segir brýnt að þjóðin fái að kjósa um Icesave-samkomulagið. „Við eigum að taka ábyrgð á framtíð okkar sem þjóð saman."

Aðspurður segir Höskuldur að leitað hafi verið eftir stuðningi þingmanna annarra flokka við frumvarpið. „Svona mál eru þess eðlis að menn eiga að leggja niður flokkadrætti. Menn eiga að koma fram og fylgja sannfæringu sinni," segir þingmaðurinn.

Í greinargerð með tillögu þingmannanna segir að úrslit slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrði ekki bindandi. Þó megi telja að Alþingi og ríkisstjórnin myndi lúta niðurstöðu hennar eins og títt er í nágrannalöndum okkar um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ekki eru bindandi fyrir stjórnvöld. Lagt er til að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eins fljótt og auðið er og í samræmi við boðað frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Meðflutningsmenn Höskuldar eru: Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Valgeir Skagfjörð, Vigdís Hauksdóttir, Þráinn Bertelsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×