Innlent

Stjórnarflokkarnir verða að leysa málin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birkir J. Jónsson segir að þingmenn stjórnarinnar verði að leysa málin sín á milli áður en þeir fari að tjá sig í fjölmiðlum.
Birkir J. Jónsson segir að þingmenn stjórnarinnar verði að leysa málin sín á milli áður en þeir fari að tjá sig í fjölmiðlum.
Þingmenn þeirra flokka sem ekki eiga aðild að ríkisstjórninni hafa fátt að segja um þá hugmynd Björgvins G. Sigurðarsonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um að ríkisstjórnin leggi fram þingsályktunartillögu um ESB aðild sem þingmenn geta svo kosið um.

„Ég held að þetta sé bara eitthvað sem vinstri flokkarnir verði að fara að gera upp við sig. Það er greinilegt að erfiðleikarnir eru miklir við að koma sér saman um þetta mál," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. „Þeir verða að koma sér í gegnum þessar viðræður. Við erum að sinna akkúrat öðru núna. Það er greinilegt að þeir ætla sér að vinna saman eftir kosningar hafi þeir styrk til og þeir verða að koma sér saman um þessi mál," sagði Þorgerður í samtali við fréttastofu rétt áður en þingflokksfundur hjá sjálfstæðismönnum hófst.

„Maður hefur varla undan því að lesa ummæli einstakra stjórnarþingmanna núna þegar að núverandi stjórnarflokkar eru að reyna að mynda ríkisstjórn. Mér finnst brýnt að þeir klári málin sín á milli áður en við förum að ræða málin eitthvað frekar," segir Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins. Birkir segir að einstakir þingmenn ræði málin út og suður og farsælast væri fyrir þá að klára að ræða málin sín á milli áður en þeir færu að stunda áróður í fjölmiðlum fyrir sína flokka.

Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir að hreyfingin leggi fyrst og fremst áherslu á að ef til aðildarviðræðna komi verði niðurstaða þeirra bornar upp í þjóðaratkvæðagreiðslu. Borgarahreyfingin hafi ekki tekið neina afstöðu til þess hvernig aðdragandinn að aðildarviðræðum ætti að vera. Hann segir að ekki hafi verið rætt við Borgarahreyfinguna um aðkomu að málinu.

Þingflokksfundir hafa staðið yfir hjá þingflokkum VG og Samfylkingarinnar í dag. Gera má ráð fyrir að stjórnarmyndun og hugsanleg ESB aðild verði þar til umræðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×