Íslenski boltinn

Mótherjar Fram í kvöld eru ekki frá Wales eftir allt saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framarinn Halldór Hermann Jónsson.
Framarinn Halldór Hermann Jónsson. Mynd/Daníel

Framarar mæta liði The New Saints F.C. í undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld en liðið er fulltrúi Wales í keppninni. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að liðið er í raun með aðsetur í Oswestry í Shropshire-fylki í Englandi og spilar heimaleiki sína á Park Hall vellinum í þessum enska bæ sem er rétt við landamæri Englands og Wales.

Ástæðan fyrir því að liðið spilar í velsku deildinni en ekki þeirri ensku er að félagið varð til þegar tvö lið, annað frá Wales (Llansantffraid F.C.) og hitt frá Englandi (Oswestry Town) sameinuðust árið 2003. Áður hafði Llansantffraid F.C. endurskírt sitt félag í Total Network Solutions F.C.

The New Saints F.C. þurfti að fá sérstak leyfi frá UEFA til að sameina félög sem voru undir tveimur knattspyrnusamböndum. Fullt nafn félagsins er ekki af ódýrri gerðinni en það heitir fullu nafni: The New Saints of Oswestry Town & Llansantffraid Football Club.

Framrar mæta þegar ensk-velska liði í seinni leik sínum í fyrstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar klukkan 18.00 í kvöld að íslenskum tíma og nægir jafntefli til þess að komast áfram í næstu umferð þar sem mótherjar liðsins verða þá tékkneska liðið Sigma Olomouc.

Fram.is verður með beina textalýsingu frá leik The New Saints og Fram á heimasíðu sinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×