Innlent

Hollendingar urðu að sleppa sjóræningjum

Óli Tynes skrifar
Hollendingar urðu að sleppa sjóræningjum eftir að þeir frelsuðu gísla úr þeirra höndum.
Hollendingar urðu að sleppa sjóræningjum eftir að þeir frelsuðu gísla úr þeirra höndum.

Hollenskir sjóliðar sem handtóku sjö sómalska sjóræningja í dag þegar þeir reyndu að ræna skipi, hafa orðið að láta þá lausa. Lögum samkvæmt voru hollensku sjóliðarnir í órétti.

Þegar grískt olíuflutningaskip sendi út neyðarkall í dag hraðaði hollenskur tundurspillir sér á vettvang. Sómölsku sjóræningjarnir höfðu þá skotið á skipið en ekki komist um borð.

Þegar tundurspillirinn kom á vettvang flúðu sjóræningjarnir á árásarbátum sínum um borð í móðurskip.

Hollenskir sjóliðar eltu þá á hraðbátum og sjóræningjarnir gáfust upp. Það kom í ljós að sjóræningjarnir höfðu einnig rænt móðurskipinu sem var fiskiskip frá Jemen með tuttugu manna áhöfn.

Hollendingar frelsuðu fiskimennina og skip þeirra. Hinsvegar urðu þeir að leyfa sjóræningjunum að fara á árásarbátum sínum.

Samkvæmt hollenskum lögum mega þeir aðeins handtaka sjóræningja ef þeir eru frá Hollandi, ef fórnarlömb þeirra eru frá Hollandi eða ef þeir eru teknir í hollenskri landhelgi.

Sjóræningjarnir sigldu því glaðbeittir á brott í leit að nýju skipi til að ræna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×