Innlent

Vaxtabætur gætu hækkað um rúm 60 prósent

Útborgaðar vaxtabætur geta hækkað um á sjötta tug prósenta hjá þeim sem skulda mikið ef áform ríkisstjórnarinnar um hækkun vaxtabóta verða samþykkt á Alþingi.

Víða um þjóðfélagið hefur fólk verið að kalla eftir aðgerðum og ýmsir orðnir langeygir eftir skjaldborginni. 80 daga stjórnin lofaði að slá utan um heimili landsmanna. Í gær kynntu forystumenn ríkisstjórnarinnar áform um 25% hækkun vaxtabóta sem á að koma hinum tekjulægstu og þeim sem þyngstar bera skuldirnar til góða. Vaxtabætur geta verið drjúg búbót inn í heimilisbókhaldið og því fékk fréttastofa embætti ríkisskattstjóra til að reikna út einföld dæmi um hverju fyrirhuguð hækkun gæti skilað fólki.

Í fyrra dæminu erum við með hjón sem hafa samanlagt 900.000 kr. í tekjur á mánuði. Þau eiga hús sem er 60 milljón króna virði og eftirstöðvar íbúðalánanna eru komnar upp í 50 milljónir króna. Í óbreyttu kerfi hefðu þau fengið rúmar 253 þúsund krónur í vaxtabætur í ágúst.

Verði frumvarp ríkisstjórnarinnar samþykkt verður heldur breiðara brosið á þessum hjónum síðsumars því þá munu þau fá tæpar 394 þúsund krónur inn á bankabókina - eða um 55% hærri upphæð.

Í seinna dæminu erum við með heldur tekjulægri einstakling sem á 23 milljóna króna íbúð og skuldar í henni 20 milljónir króna. Að óbreyttu hefði hann fengið rétt tæpar 190 þúsund krónur í vaxtabætur en ef alþingi samþykkir hækkun vaxtabóta, fær hann röskar 237 þúsund krónur, eða tæpum fimmtíu þúsund krónum meira til að grynnka á skuldasúpunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×