Lífið

Tár féllu á síðasta tökudegi

Tökuliðið felldi tár yfir lokaatriðinu í Mömmu Gó Gó
Tökuliðið felldi tár yfir lokaatriðinu í Mömmu Gó Gó

„Sko, þetta er pínulítið flókið. En við leikum sem sagt tökuliðið hans Hilmis Snæs í bíómynd sem hann er að leikstýra í kvikmyndinni Mömmu Gó Gó," segir Ragnar Bragason, leikstjóri Fangavaktarinnar.

Eins og greint var frá á forsíðu Fréttablaðsins voru tökulið sjónvarpsþáttarins Fangavaktin og tökulið kvikmyndarinnar Mömmu Gó Gó stödd á nánast sama fermetranum við Suðurgötu. Föruneyti Mömmu Gó Gó var að taka upp atriði þar sem ein af aðalpersónum myndarinnar, Hilmir Snær, er að leikstýra eigin kvikmynd. Hins vegar sárvantaði tökulið til að leika í smá atriði og að sögn Ragnars voru menn fljótir að hugsa. Og ákváðu að nýta bara tökulið Fangavaktarinnar í umrædda senu.

„Því miður þurfti leikarinn sem ég var að vinna með að þjóta þannig að ég tók þetta bara á mig og lét lögguna elta mig," útskýrir Ragnar sem mun því, að öllum líkindum, bregða fyrir í mýflugumynd í Mömmu Gó Gó ásamt eigin tökuliði.

Tökum á Mömmu Gó Gó lauk hins vegar í Skagafirðinum á föstudagskvöldið. Og þá tóku tilfinningarnar öll völd. „Við áttum alveg gullfallega stund fyrir norðan, fengum veður eftir pöntun, það var bara eins og almættið hefði blessað okkur" segir Guðrún Edda Þórhannesdóttir, framleiðendi myndarinnar. Og að hennar sögn féllu ófá tár þegar aðalleikararnir, Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld, sátu í skagfirska sólarlaginu í lokaatriðinu.

„Þetta var alveg ótrúlegt, menn grétu yfir þessari senu. Bókstaflega. Og svo bara skálað í sumarnóttinni og góðu verki fagnað," segir Guðrún. Mamma Gó Gó fer nú í klippiherbergið en Guðrún segir enn ekki ákveðið hvenær hún verður frumsýnd. „September kemur alveg til greina en það er kannski aðeins of knappur tími fyrir okkur. Við sjáum bara til."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.