Enski boltinn

Aron vekur áhuga Blackburn

AFP
Enska blaðið Daily Mirror segir frá því í dag að úrvalsdeildarliðið Blackburn hafi áhuga á því að kaupa íslenska landsliðsmanninn Aron Einar Gunnarsson.

Aron skoraði fyrsta mark sitt fyrir Coventry um helgina í bikarleik gegn Blackburn.

Aron, sem á 2 og hálft ár eftir af samningi sínum við Coventry sagði í samtali við fréttastofu í gær að hann væri ánægður með dvöl sína hjá Coventry og hefði nægan tíma til þess að velta því fyrir sér hvar hann myndi leika í framtíðinni.

Áhugi Blackburn er skiljanlegur því Aron var í mörgum fjölmiðlum valinn maður leiksins gegn Blackburn þegar liðin mættust í ensku bikarkeppninni um helgina.

Knattspyrnustjóri Blackburn, Sam Allardyce, þekkir vel til íslenskra knattspyrnumanna. Á meðal þeirra Íslendinga sem léku undir hans stjórn þegar hann stýrði Bolton voru Guðni Bergsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Gunnlaugsson.

Daily Mirror segir að Liverpool og Glasgow Celtic líti einnig hýru auga til Arons.

Coventry vill eðlilega ekki missa Aron úr sínum röðum því hann er búinn að spila 27 leiki fyrir liðið sem er í 14. sæti ensku 1. deildarinnar.

Coventry mætir Burnley í 1. deildinni í kvöld en með Burnley leikur Jóhannes Karl Guðjónsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×