Erlent

Færri féllu í Pakistan en í fyrstu var talið

Lögreglan handtekur einn af árásarmönnunum. MYND/AP
Lögreglan handtekur einn af árásarmönnunum. MYND/AP
Blóðbað varð í lögregluskóla í Lahore í Pakistan í dag. Íslamistar gráir fyrir járnum réðust þar inn vopnaðir byssum og sprengjum. Pakistönsk yfirvöld segja Talíbana hafa verið að verki. Í fyrstu var talið að tugir hefðu fallið en pakistönsk yfirvöld segja að fjórtán hafi fallið. Árásin vekur spurningar um stöðugleika í kjarnorkuveldinu Pakistan.

Um níu hundruð nemendur voru á skólasvæðinu við upphaf morgunæfinga þegar andspyrnuhópurinn réðst þangað inn úr fjórum áttum. Þeir vörpuðu handsprengjum inn á svæðið að sögn vitna og hófu síðan skothríð. Einhverjir þeirra munu hafa verið dulbúnir sem lögreglumenn.

Sérsveitarmenn voru þegar sendir á vettvang og umsátursástand skapaðist. Það varði í um átta klukkustundir eða allt þar til sérsveitarmenn létu til skarar skríða og mikil skotbardagi hófst sem stóð í nærri stundarfjórðung. Meðan herlið réðst inn var herþyrlum flogið lágt yfir skólasvæðið og skotið úr þeim beint inn í skólabyggingar. Loks var búið að yfirbuga árásarmennina.

Í fyrstu var talið að tugir hefðu fallið en pakistönsk yfirvöld segja fjórtán. Átta lögreglumenn, tveir almennir borgarar og fjórir árásarmenn. Áttatíu og níu hafi særst. Þrír úr árásarhópnum voru handteknir.

Árásin í dag, önnur í borginni á innan við mánuði, eykur enn á óróa í kjarnorkuveldinu Pakistan. Sérfræðingar segja Íslamista há há ofbeldisfulla baráttu við borgaralega stjórn landsins sem þeir vilji koma frá vegna þess hve hún halli sér að vesturveldunum með stuðningi við aðgerðir gegn Talíbönum og Al Kaída í Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×