Innlent

Gunnar Páll: Neðsta sætið vonbrigði

Gunnar Páll Pálsson, tapaði í formannskjöri í VR. Bjóst við breiðari stuðningi.
Gunnar Páll Pálsson, tapaði í formannskjöri í VR. Bjóst við breiðari stuðningi.

„Maður verður að taka þessari niðurstöðu, þetta búinn að vera hörð barátta," segir Gunnar Páll Pálsson sem tapaði í kosningu um formann VR. Hann er starfandi formaður og er vonsvikinn yfir niðurstöðunni.

Gunnar hefur hinsvegar verið mjög umdeildur eftir að í ljós kom að hann sat í stjórn Kaupþings þegar bankinn var þjóðnýttur. Niðurstaða kosningarinnar var skýr, Gunnar hlaut 28 prósent á meðan Kristinn Örn Jóhannesson, nýkjörinn formaður, hlaut rétt tæp 42 prósent.

„Ég vissi ekki á hverju ég átti von," svarar Gunnar spurður hvort niðurstaðan hafi komið honum á óvart. Hann segist þó hafa búist við breiðari stuðning en raunin varð. Hann segir niðurstöðuna vonbrigði.

Gunnar Páll varð gríðarlega umdeildur eftir að í ljós kom að hann sat í stjórn Kaupþings auk þess sem deilt var á yfirgengilegan launakostnað og bílkost.

Lúðvík Lúðvíksson, netagerðamaður og frambjóðandi, mótmælti reglulega fyrir utan höfuðstöðvar VR þar sem hann krafðist þess að Gunnar Páll segði af sér formennsku. Lúðvík bauð sig síðan fram til formanns og hlaut fleiri atkvæði en Gunnar, eða 30 prósent.

Aðspurður hvort Gunnar telji að þarna hafi verið að refsa honum fyrir nefndarstörf hjá Kaupþingi svarar Gunnar: „Það var orðrómur um að ég væri þjófur."

Hann segir baráttuna hafa verið mjög harða og óvægna gagnvart persónu sinni.

„Ég vil þakka þeim sem þó studdu mig," segir Gunnar Páll en áréttir að lokum að niðurstaðan sé mjög skýr.

6743 félagsmenn kusu í rafrænni kosningu og hlaut Kristinn 2.651 atkvæði, Lúðvík Lúðvíksson hlaut 1.904 atkvæði og Gunnar Páll Pálsson hlaut 1.774 atkvæði. Auðir og ógildir seðlar voru 409.

Alls eru 25.095 félagsmenn á kjörskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×