Innlent

Ríkið gæti sparað rúma hundrað milljarða

Höskuldur Kári Schram skrifar
Samningar hafa tekist við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna þriggja. Skilanefnd Kaupþings tekur yfir nýja bankann og þá mun nýr Íslandsbanki taka til starfa á næstu vikum. Kostnaður ríkisins vegna endurreisn bankanna gæti lækkað um rúmlega eitt hundrað milljarða vegna þessa.

Formlegar viðræður við kröfuhafa gömlu bankanna hófust í byrjun júnímánaðar en þeim lauk á föstudag. Þá stóð til að ríkið myndi endurfjármagna bankana með 280 milljarða króna framlagi. Þeirri aðgerð var hins vegar frestað fram yfir helgi á meðan gengið yrði endanlega frá samningum við kröfuhafa. Til stendur að kynna niðurstöðuna opinberlega á morgun.

Árni Tómasson, formaður skilnefndar Glitnis, staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að búið væri að ganga frá samningum við kröfuhafa bankans. Nýr Íslandsbanki tekur til starfa á næstu vikum en samningarnir fela það meðal annars í sér að kröfuhafar geti eignast bankann að hluta eða öllu leyti.

Einnig hefur verið gengið frá samkomulagi við kröfuhafa Kaupþings og Landsbankans.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun skilanefnd Kaupþings, fyrir hönd kröfuhafa, taka yfir nýja bankann en í hópi kröfuhafa eru meðal annars stórir evrópskir bankar.

Með þessu er tryggt að eignir bankans verða ekki seldar á brunaútsölu og verðmæti þeirra þannig hámarkað. Ennfremur þykir það mikill kostur að tengja saman hagsmuni Íslands og þessara erlendu banka.

Erfitt er að meta heildaráhrif þessara samninga miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir. Viðmælendur fréttastofu telja þó líklegt að þetta opni fyrir lánalínur til landsins og geri það ennfremur að verkum að kostnaður ríkisins vegna enduruppbyggingar bankakerfisins gæti orðið mun lægri. Er talað um rúmlega eitt hundrað milljarða króna í því samhengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×