Páll Baldvin Baldvinsson hefur andmælt áliti Þjóðleikhúsráðs um umsækjendur um starf Þjóðleikhússtjóra. Í bréfi sem Páll stílar á Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, gagnrýnir hann Þjóðleikhúsráð meðal annars fyrir skort á rökstuðningi við matið.
Þá segir hann Þjóðleikhúsráð vera vanhæft til að leggja mat á hæfi sitjandi Þjóðleikhússtjóra þar sem ráðið komi með beinum hætti að rekstri leikhússins. Hann furðar sig á því að Tinna Gunnlaugsdóttir skuli metin mjög vel hæf, í ljósi svartrar skýrslu Ríkisendurskoðunar um Þjóðleikhúsið, frá því í nóvember á síðasta ári.
Páll gagnrýnir einnig að umsækjendur hafi ekki verið boðaðir í viðtal.
Níu umsækjendur voru um starf Þjóðleikhússtjóra og voru þeir allir metnir hæfir. Þær Tinna Gunnlaugsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir voru hinsvegar metnar mjög vel hæfar.
Í meðfylgjandi skjali má lesa andmæli Páls í heild sinni.