Málflutningur forsvarsmanna Samtaka iðnaðarins og Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um fyrirtæki í framleiðslu og innflutningi á sementi er dapurlegur, segir Bjarni Ó. Halldórsson, framkvæmdastjóri Aalborg Portland á Íslandi.
Vegna fjölmiðlaumræðu síðustu daga um málefni fyrirtækjanna sendi Bjarni fjölmiðlum tilkynningu í gær þar sem segir meðal annars:
„Forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins halda því fram að að íslensk einokun sé betri en dönsk og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekur undir þau sjónarmið. Slíkur málflutningur er dapurlegur vitnisburður um ásetning þessara aðila um endurreisn íslensks atvinnulífs.
Öll samtök atvinnulífsins á Íslandi – líka Samtök iðnaðarins – hafa lagt áherslu á frjálsa samkeppni þrátt fyrir ofurvald ríkisins um þessar mundir. Þess vegna eru ummæli framkvæmdastjóra SI [Jóns Steindórs Valdimarssonar] óskiljanleg og afar sorgleg.
Aalborg Portland fer hvorki fram á ívilnanir né styrki heldur aðeins að hafðar séu í heiðri heiðarlegar leikreglur á markaði. Það mun gagnast íslenskri þjóð best.“ - shá