„Fyrir okkur er það líka alvarleg staða að lesa megi út úr ferli þessa máls, að Þjóðkirkjan skuli ætla sér annað réttarfar en samfélagið sem hún á að þjóna. Það vekur einnig upp guðfræðilegar spurningar í lúterskri kirkju," þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi sem tíu prestar hafa skrifað Biskupi Íslands til varnar séra Gunnari Björnssyni, en Gunnar hefur sem kunnugt er verið í leyfi síðustu tvö árin vegna ásakana um kynferðisbrot gegn sóknarbörnum sínum.
Prestarnir skrifa Biskupi bréfið þann 12.september síðast liðinn en eins og komið hefur fram í fréttum fór Biskup fram á að séra Gunnar snéri ekki aftur í Selfosskirkju heldur tæki að sér embætti sérþjónustuprests við Biskupsstofu í Reykjavík.
Biskup Íslands telur að séra Gunnari Björnssyni beri að víkja frá Selfossi, með vísan í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gunnar ætlar sér hvergi og hefur boðað til fundar með stuðningsmönnum á Selfossi í kvöld.
Nánar verður fjallað um málið í Kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.
Mál séra Gunnars vekur upp guðfræðilegar spurningar
