Enski boltinn

Petrov ætlar að sjá hvað Barry gerir

Elvar Geir Magnússon skrifar
Petrov og Barry fagna saman.
Petrov og Barry fagna saman.

Stiliyan Petrov viðurkennir að framtíð sín gæti ráðist á því hvað Gareth Barry gerir. Báðir leika þeir með Aston Villa en Barry var sterklega orðaður við Liverpool á síðasta ári.

Petrov á aðeins 17 mánuði eftir af samningi sínum við Villa en hann vill sjá hver metnaður félagsins er áður en hann ákveður framtíð sína.

„Ef við höldum Gareth þá eru það skilaboð til allra leikmanna liðsins að félagið ætli sér stóra hluti. Það vona allir að hann verði hér áfram vegna þess að hann er einn besti miðjumaður landsins og ef þú hefur metnað til að ná árangri þá gerirðu allt til að halda honum," sagði Petrov.

Martin O'Neill, knattspyrnustjóri, hefur sett það sem eitt af forgangsatriðum sínum að fá Petrov til að skrifa undir nýjan samning. Petrov segist sjálfur ekkert vera að flýta sér. „Liðið ætlar að enda í einum af fjórum efstu sætunum og komast eins langt og hægt er í UEFA-bikarnum. Það er það mikilvægasta núna," sagði Petrov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×