Innlent

Endurskoðendaskýrslur verða sendar sérstökum saksóknara

Gunnar Haraldsson stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins segir að það rannsaki nú fjölda mála og nokkur þeirra verði send innan skamms sérstökum saksóknara vegna bankahrunsins.
Gunnar Haraldsson stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins segir að það rannsaki nú fjölda mála og nokkur þeirra verði send innan skamms sérstökum saksóknara vegna bankahrunsins.

Skýrslur endurskoðenda um aðdraganda bankahrunsins, sem nú eru í vörslu Fjármálaeftirlitsins, verða sendar í heild sinni sérstökum saksóknara, Ólafi Þ. Haukssyni. Þetta segir Gunnar Haraldsson, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins.

„Við erum í samráði við sérstakan saksóknara og erum að undirbúa að senda mál til hans þar sem skýrslurnar munu fylgja. Við erum líka að samþykkja verklagsreglur, sem við höfum búið til í samvinnu við hann, til að tryggja að mál séu unnin á sem bestan hátt," segir Gunnar.

Fjöldi mála sé í rannsókn hjá eftirlitinu og nokkur þeirra á lokastigi. Þau verði send út til sérstaks saksóknara innan skamms. „Þetta er allt mjög vel á veg komið," segir Gunnar.

Hann var spurður hvort vísbendingar, sem komi fram í þeim málum sem verða send áfram, kunni að duga til að réttlæta það að kyrrsetja eignir þeirra sem eigi í hlut. Gunnar segist ekki treysta sér til að meta það. Sérstakur saksóknari verði betur til þess fallinn, þegar þar að kemur. - kóþ


































Fleiri fréttir

Sjá meira


×