Innlent

Maður myrtur við Kristjaníu

Maðurinn, sem var af írönskum uppruna, var skotinn þrisvar í hnakkann.nordicphotos/afp
Maðurinn, sem var af írönskum uppruna, var skotinn þrisvar í hnakkann.nordicphotos/afp

Maður af írönskum uppruna var skotinn til bana í bíl sínum við Kristjaníusvæðið í Kaupmannahöfn í gærdag. Ekki er vitað hvort morðið tengist hörðum átökum innflytjendaklíka og Vítisengla, sem staðið hafa yfir síðan í ágúst á síðasta ári.

Í frétt Politiken segir að maðurinn, sem var 26 ára gamall, hafi setið í kyrrstæðum bíl sínum við Refshalevej, sem liggur við Kristjaníu, þegar hann var skotinn þremur skotum í hnakkann. Ove Dahl, yfirmaður í morðdeild Kaupmannahafnarlögreglunnar, segir hinn myrta hafa komið við sögu lögreglu, en þó ekki vegna alvarlegra glæpa. Í umfjöllun Ekstrabladet um málið kemur fram að blaðið hafi heimildir fyrir því að maðurinn hafi verið myrtur fyrir að selja hass í Kristjaníu. Heimildarmaður blaðsins segir að maðurinn hafi ekki haft tilskilin „leyfi“ fyrir hasssölunni, en eiturlyfjamarkaðnum í Kristjaníu mun vera stýrt af vélhjólaklíkum á borð við Vítisengla.

Lögregla, stjórnmálamenn og sérfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna stigvaxandi hörku í deilum innflytjendaklíka og Vítisengla. Í vikunni birtist löng grein á heimsíðu dönsku Vítisenglanna þar sem múslimar og aðrir innflytjendur eru sakaðir um að „hata Dani, skapgerð þeirra og lífsstíl, kristnidóminn og öll tákn hans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×