Innlent

Greip um löggulegg á Lukku-Láka

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms yfir manni sem braut gegn valdsstjórninni fyir utan skemmtistaðinn Lukku-Láka í Grindavík árið 2007. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa veist með ofbeldi að lögreglumanni, sem var að sinna skyldustarfi sínu, en maðurinn læsti höndum sínum um fótlegg lögreglumannsins sem við það féll í jörðina og hlaut rispur á fingri og marbletti á vinstra hné. Maðurinn var einnig dæmdur til þess að greiða allan áfrýjunarkostnað, samtals 200.000 krónur.

Maðurinn krafiðst sýknu meðal annars vegna ágalla í ákærunni en í dómi Hæstaréttir segir að ákæruvaldið hafi leiðrétt villu í ákæru. Þar segir að ákærði hafi læst höndum sínum „um fótleggi lögreglumannsins", en þar á að standa að ákærði hafi læst höndum sínum um fótlegg lögreglumannsins.

Þá segir að engin lögregluskýrsla hafi verið tekin af lögreglumönnunum tveimur sem komu að atvikinu. Auk þess voru tvö vitni að atvikinu sem yfirheyrð voru af lögrelumanni sem starfar við sama embætti og lögreglumennirnir sem stóðu að handtökunni.

Hæstiréttur segir meðal annars að eðli málsins samkvæmt og í ljósi þeirrar meginreglu að hlutlægni skuli gætt við rannsókn sakamála, sbr. nú 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er það aðfinnsluvert að lögreglurannsókn málsins var ekki falin öðru embætti.

Þar sem málsatvik eru einföld og lögreglumennirnir og vitnin gáfu skýrslu fyrir dómi, þykja framangreindir ágallar á rannsókninni þó ekki eiga að varða frávísun málsins frá héraðsdómi, segir í dómi Hæstaréttar.

Hæstiréttur staðfestir því dóm héraðsdóms.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×