Innlent

40% heimila skulda meira en eign þeirra stendur undir

Ríflega fjörtíu prósent heimila skulda meira en eign þeirra stendur undir eða eiga afar lítið umfram veðskuldir, samkvæmt greiningu Seðlabankans á stöðu heimilanna.

Seðlabankinn kynnti í dag bráðabirgðaniðurstöður sínar úr ítarlegustu rannsókn sem gerð hefur verið á skuldastöðu heimilanna og nær til 80 prósent heimila í landinu. Inn í dæmið vantar að vísu skuldir hjá lífeyrissjóðum, en greining bankans segir sína sögu.

Um áramótin áttu langflestir húsnæðiseign sem er undir 19 milljónum en um 70 prósent eigna landsmanna eru undir 30 milljónum.

Tæplega 90 prósent heimila eru eingöngu með fasteignalán í krónum, þrjú prósent eru eingöngu með erlend lán og 8 prósent með blönduð lán.

Af þeim heimilum sem eru með neikvæða eignastöðu eru 77 prósent eingöngu með lán í krónum en 23 prósent eru ýmist með hreint erlent lán eða blönduð lán. Hlutfallslega eru heimili með erlend lán ver stödd því þau eru 11 prósent húseigenda en 23 prósent þeirra sem eru í mestum vanda.

Þá er fróðlegt að skoða stöðu þeirra sem eru í neikvæðri eignastöðu miðað við aldur. Þar er langstærsti aldurshópurinn fól á aldrinum 30 - 44 ára, eða 48 prósent. 29 prósent eru á aldrinum 45 - 49 ára, 15 prósent frá 18 - 29 ára en 10 prósent húseigenda yfir 60 ára eru með neikvæða eignastöðu.

Aukning á greiðslubyrði heimila af húsnæðislánum frá því lán var tekið til áramóta, er nær undantekningarlaust undir 50 þúsund krónum á mánuði, hins vegar hefur greiðslubyrði 30 prósenta þeirra sem eru með erlent lán hækkað um meira en 50 þúsund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×