Íslenski boltinn

Umfjöllun: Ótrúlegur sigur Blika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir skoraði eitt og lagði upp annað fyrir Blika.
Fanndís Friðriksdóttir skoraði eitt og lagði upp annað fyrir Blika. Mynd/Auðunn
Breiðablik vann 3-2 sigur á Val í Pepsi-deild kvenna en Valur hafði 2-1 forystu í leiknum þegar að venjulegur leiktími rann út.

Þær Harpa Þorsteinsdóttir og Anna Björg Þorvarðardóttir skoruðu síðustu tvö mörk Blika í uppbótartíma en Valur hafði þá lengst af verið sterkari aðilinn í leiknum.

Fanndís Friðriksdóttir kom Blikum yfir á elleftu mínútu en þremur mínútum síðar jafnaði Guðný Petrína Þórðardóttir metin fyrir Val. Kristín Ýr Bjarnadóttir kom svo þeim rauðklæddu yfir í síðari hálfleik og virtist sem svo að það myndi reynast sigurmarkið. En annað átti eftir að koma í ljós.

Blikar byrjuðu betur í leiknum og komst Fanndís snemma í ágætt færi eftir að hafa farið framhjá Pálu Marie Einarsdóttur, varnarmanni Vals. Skot hennar hitti þó ekki á mark heimamanna.

Aðeins fimm mínútum síðar var Fanndís aftur á ferðinni. Hún lék aftur á Pálu, þá Sif Atladóttir og í þetta sinn brást henni ekki bogalistin. Hún skoraði með hnitmiðu skoti.

Valsmenn létu þó þetta ekki á sig fá og reyndu að sækja af fremsta megni. Þeir fengu aukaspyrnu á hættulegum stað á 13. mínútu en boltinn fór yfir markið.

Vindurinn stóð á mark Blika í fyrri hálfleik og því reyndust útspörk markvarða erfið viðfangs. Eftir eitt slíkt náði Rakel Logadóttir að hirða boltann af varnarmanni Vals, lék á annan og náði góðri sendingu fyrir markið. Þar var Guðný Petrína Þórðardóttir mætt á réttan stað og skoraði með skalla af stuttu færi. Markið kom á 14. mínútu.

Guðný komst svo nálægt því að skora öðru sinni aðeins átta mínútum síðar. Katrín Jónsdóttir lagði þá boltann á Guðnýju sem var í góðri stöðu en skaut framhjá.

Fanndís var aftur í eldlínunni stuttu síðar. Hún náði að hirða boltann af varnarmanni Vals og kom sér í prýðilega stöðu en skot hennar fór líka framhjá markinu.

Valur var þó sterkari aðilinn í leiknum eftir að jöfnunarmarkið kom og þó svo að Blikar hafi byrjað betur fyrstu mínúturnar í síðari hálfleik dró fljótlega af þeim. Þó svo að Valur hafi leikið gegn vindi í síðari hálfleik héldu þær áfram að stjórna leiknum.

Það var þó lítið um færi lengst af í síðari hálfleik og þeim meira barist um boltann á miðjum vellinum. Sóknir Vals voru þó hættulegri og átti Rakel ágætt skot að marki Blika eftir eina slíka en Elsa Hlín Einarsdóttir, markvörður Blika, var vel á verði.

Elsa gerði sig þó seka um slæm mistök í síðari marki Valsmanna í leiknum. Boltinn barst inn á teig úr innkasti og skallaði varamaðurinn Kristín Ýr að marki. Skallinn var þó ekki fastur en Elsa missti boltann í markið.

Aðeins tveimur mínútum síðar var nánast endurtekning á þessu sama atviki en í þetta sinn hafnaði boltinn í stönginni á marki gestanna.

Blikar virtust vakna til lífsins eftir þetta og settu allt á fullt í sóknarleik sínum enda með sterkan vind í bakið. Þær fengu hættulegt færi á 88. mínútu er Sandra Sif Magnúsdóttir átti skot í utanverða stöngina úr aukaspyrnu.

Öll von virtist úti fyrir Blika en í uppbótartíma kom jöfnunarmarkið. Fanndís var með boltann hægra megin í teignum, lagði hann út á Hörpu sem skoraði með góðu skoti úr miðjum vítateignum.

En þar með var dramatíkinni ekki lokið. Blikar fengu hornspyrnu og hreinsuðu Valsmenn boltann frá marki eftir hana. Boltinn barst út á völl þar sem aftasti útileikmaður Blika, Anna Birna, lét einfaldlega vaða að marki af 35 metra færi. Þar kom vindurinn að góðum notum og söng knötturinn í netmöskvunum.

Niðurstaðan því ótrúlegur sigur Blikastúlkna.

Valur - Breiðablik 2-3

0-1 Fanndís Friðriksdóttir (11.)

1-1 Guðný Petrína Þórðardóttir (14.)

2-1 Kristín Ýr Bjarnadóttir (74.)

2-2 Harpa Þorsteinsdóttir (91.)

2-3 Anna Birna Þorvarðardóttir (93.)

Vodafone-völlurinn. Áhorfendur: Óuppgefið.

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson

Skot (á mark): 8-15 (7-10)

Varin skot: María 7 - Elsa 4.

Horn: 3-3

Aukaspyrnur fengnar: 6-8

Rangstöður: 4-3



Valur (4-3-3):


María Björg Ágústsdóttir

Sif Atladóttir

(64. Dagný Brynjarsdóttir)

Pála Marie Einarsdóttir

Embla Grétarsdóttir

Björg Ásta Þórðardóttir

Katrín Jónsdóttir

Helga Sjöfn Jóhannesdóttir

Dóra María Lárusdóttir

Rakel Logadóttir

(85. Thelma Björk Einarsdóttir)

Guðný Petrína Þórðardóttir

(69. Kristín Ýr Bjarnadóttir)

Hallbera Guðný Gísladóttir

Breiðablik (4-4-2):

Elsa Hlín Einarsdóttir

Hekla Pálmadóttir

Erna Björk Sigurðardóttir

Anna Birna Þorvarðardóttir

Guðrún Erla Hilmarsdóttir

Berglind Björg Þorvaldsdóttir

Hlín Gunnlaugsdóttir

Sara Björk Gunnarsdóttir

Sandra Sif Magnúsdóttir

Fanndís Friðriksdóttir

Harpa Þorsteinsdóttir


Tengdar fréttir

Freyr: Við guggnuðum

Freyr Alexandersson, þjálfari Vals, var heldur niðurlútur eftir að hans lið tapaði fyrir Breiðabliki í Pepsi-deild kvenna í kvöld á dramatískan máta.

Erna: Veitir okkur sjálfstraust

Erna Björk Sigurðardóttir, fyrirliði Breiðabliks, var himinlifandi með sigur sinna manna á Val á Vodafone-vellinum í kvöld.

Rakel: Okkar tími mun koma

Rakel Logadóttir, leikmaður Vals, var orðlaus eftir ótrúlegan 3-2 sigur Breiðabliks á Val í Pepsi-deild kvenna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×