Innlent

Benda á fjarveru Dags

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á kosningavöku flokksins í vor.
Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á kosningavöku flokksins í vor.
Fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fulltrúa Framsóknarflokksins í skipulagsráði Reykjavíkur, á fundum ráðsins má rekja til þess að hann er formaður Framsóknarflokksins. Þetta kemur fram í bókun fulltrúa Framsóknarflokks- og Sjálfstæðisflokks í skipulagsráði um mætingu Sigmundar Davíðs á fundi ráðsins. Fulltrúar meirihlutans telja réttast að Samfylkingin byrji á sjálfri sér í þessum efnum vilji flokkurinn að reglur um mætingarskyldu séu skýrari. Þeir benda á fjarveru Dags B. Eggertssonar, borgarfulltrúa og varaformanns Samfylkingarinnar, málinu sínu til stuðnings.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fékk 52.962 krónur greiddar fyrir hvern fund sem hann mætti á í skipulagsráði borgarinnar frá því í ágúst í fyrra. Þetta kemur fram þegar svar skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar er skoðað en það var lagt var fram á fundi skipulagsráðs í gær sem svar við fyrirspurn Samfylkingar og Vinstri grænna. Óskað var eftir upplýsingum um mætingu og launakjör Sigmundar Davíðs á umræddu tímabili og kostnað borgarinnar við að kalla inn varamenn í hans stað.

Í bókun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er bent á þá staðreynd að Sigmundur Davíð gegni formennsku í Framsóknarflokknum. „Eins og flestum er kunnugt hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugson nefndarmaður í Skipulagsráði Reykjavíkur tekið að sér formennsku í stjórnmálaflokki og hefur af þeim sökum mætt minna á fundi en efni stóðu til í upphafi."

Ekki séð hefð fyrir því í stjórnkerfi borgarinnar að fulltrúar gegna trúnaðarstörfum víða og ekki hafi verið gerðar athugasemdir við það fyrr en núna. „Nýjasta dæmið er án efa fjarvera oddvita Samfylkingarinnar, Dags B Eggertssonar síðastliðið ár þar sem hann hefur tekið virkan þátt í stjórn landsmála á meðan hann var á launum hjá borginni. Ef Samfylkingin er að leggja til að reglur verði skýrari en verið hefur er réttast að hún byrji á sjálfri sér," segir í bókun meirihlutans.

Minnihlutaflokkarnir lögðu í framhaldinu fram bókun og sögðu fjarveru Dags ekki sambærilega við mál Sigmundar Davíðs. „Fjarvera formanns Framsóknarflokksins í skipulagsráði er einsdæmi í borginni og full ástæða í framhaldi af því að endurskoða reglur borgarinnar. Fjarvera oddvita Samfylkingarinnar eru í engu samræmi við það sem til umræði er í máli Sigmundar Davíðs."


Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð fékk 53 þúsund fyrir hvern fund

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fékk 52.962 krónur greiddar fyrir hvern fund sem hann mætti á í skipulagsráði borgarinnar frá því í ágúst í fyrra.

Hefur mætt á 50% funda í Skipulagsráði

Framsóknarmaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur mætt á 18 af þeim 36 fundum sem hann hefur átt að sitja í Skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Alls hafa verið haldnir 43 fundir síðan Sigmundur var kosinn í ráðið þann 21.ágúst 2008 en hann var í leyfi á 7 af þeim fundum. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í ráðinu kölluðu eftir yfirliti um fundarsetu Sigmundar á síðasta fundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×