Innlent

Nítján ára stúlka í sjálfheldu í Vífilsfelli

Mynd úr safni
Mynd úr safni

Hjálparsveit skáta Reykjavík var kölluð út klukkan rúmlega 17:00 í dag vegna stúlku sem er í sjálfheldu ofarlega í Vífilsfelli. Þrír hópar björgunarsveitarmanna eru á staðnum og leita nú nákvæmrar staðsetningar stúlkunnar. Hún hefur verið í símasambandi og er stödd í erfiðu klettabelti og getur ekki staðið upp svo björgunarsveitarmenn sjái hana.

„Við erum nýbúnir að missa símasamband við hana þar sem rafhlaðan kláraðist á símanum hennar. Hún er á mjög erfiðum stað í fjallinum sem að öllu jöfnu er notað til klifurs," segir Jónas Guðmundsson, meðlimur í svæðisstjórn á höfuðborgarsvæðinu sem er á staðnum.

Hann segir að sínir menn séu ekki búnir að finna stúlkuna en þeir eru komnir að klettasvæðinu þar sem stúlkan er í sjálfheldu. Að sögn Jónasar getur hún ekki hreyft sig en svæðið er mjög erfitt yfirferðar.

Jónas segir að stúlkan sem er nítján ára gömul hafi verið í göngutúr og farið útaf leiðinni sem endaði með fyrrgreindum afleiðingum. „Við vorum að bæta við okkur mannskap þar sem það fer að rökkva eftir tvo tíma. Við viljum vera öruggir á þessu og vonumst til þess að finna hann fljótlega."

-----

Búið er að finna stúlkuna en hún var hífð upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar fyrir stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×