Innlent

Gagnrýnir skort á upplýsingum eftir harkalega lendingu

Ein af vélum Iceland Express
Ein af vélum Iceland Express Mynd/GVA

Farþegi sem kom til landsins með flugvél Iceland Express í gærkvöldi gagnrýnir flugfélagið harðlega fyrir skort á upplýsingum eftir að vélin var stöðvuð harkalega við lendingu. Framkvæmdastjóri Iceland Express segir að flugmaður vélarinnar hafi beðið um forgang eftir að viðvörunarlaus kviknaði vegna bilunnar sem hafi þó ekki verið alvarleg.

Farþeginn segir mikinn viðbúnað hafa verið á Keflavíkurflugvelli þegar flugvélin kom til lendingar seint í gærkvöldi en hún var að koma frá Billund í Danmörku. Farþeginn segir að flugstjórinn hafi drepið strax á vélinni á flugbrautinni. „Hann stóð bremsuna gjörsamleg í botn."

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir að viðvörunarljós hafi gefið til kynna að bilun væri í einu af þremur bremsukerfum flugvélarinnar. Engin hætta hafi verið á ferðum og að um hefðbundin vinnubrögð hafi verið að ræða þegar að flugstjórinn óskaði eftir forgangi við lendinguna. Þegar svo sé geri flugmálayfirvöld ákveðnar ráðstafanir á jörðu niðri.

Farþeginn segir sig og aðra farþega ekki hafa fengið neinar upplýsingar, hvorki fyrir né eftir lendinguna hvað væri um að vera. Mörgum farþegum hafi brugðið verulega þegar að vélin stöðvaði á miðri braut og slökkvilið kom að.

Matthías segir að lendingin hafi hugsanlega verið stutt en það tengist ekki bilunni sem hann ítrekar að hafi ekki verið alvarleg. Þá segir Matthías að gert hafi verið við bremsukerfið og að vélin sé nú í áætlunarflugi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×