Enski boltinn

Ótrúlegur sigur hjá Liverpool - Hermann skoraði

Hermann Hreiðarsson lét heldur betur finna fyrir sér í kvöld
Hermann Hreiðarsson lét heldur betur finna fyrir sér í kvöld Nordic Photos / Getty Images

Liverpool er aftur komið á toppinn í ensku úrvalsdeildinni eftir ævintýralegan 3-2 sigur á Portsmouth á útivelli í kvöldleiknum.

Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth í dag og þurftu heimamenn nauðsynlega á sigri að halda eftir skelfilegt gengi undanfarið.

Fyrri hálfleikur var fremur daufur en í þeim síðari ætlaði allt um koll að keyra. David Nugent kom heimamönnum yfir á 62. mínútu en Fabio Aurelio jafnaði fyrir Liverpool aðeins sjö mínútum síðar með skoti eftir óbeina aukaspyrnu. Hún var dæmd var upp úr glórulausum mistökum Peter Crouch sem í raun gaf fyrrum félögum sínum mark með klaufaskapnum.

Þegar tólf mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma birti þó til á ný hjá heimamönnum þegar Hermann Hreiðarsson skoraði með skalla og kom Portsmouth í 2-1.

Staðan var þarna orðin ansi vænleg fyrir heimamenn, en eins og svo oft áður í stjóratíð Tony Adams, stóð fögnuðurinn stutt.

Vörn Portsmouth var steinsofandi á 85. mínútu þegar Dirk Kuyt fékk að valsa um teiginn og jafna fyrir Liverpool og þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma tryggði varamaðurinn Fernando Torres liðinu gríðarlega mikilvægan sigur í toppbaráttunni.

Liverpool hefur 54 stig eftir 25 leiki, Manchester United hefur 53 stig eftir 23 leiki og Aston Villa hefur 51 stig í þriðja sætinu. Portsmouth er í bullandi fallbaráttu með aðeins 24 stig - einu stigi frá fallsvæðinu ásamt Stoke og Tottenham.

Manchester United getur komist aftur á toppinn á morgun með sigri á West Ham.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×