Innlent

Þingmenn Borgarahreyfingar funda

Þór Saari einn þingmanna Borgarahreyfingarinnar.
Þór Saari einn þingmanna Borgarahreyfingarinnar. MYND/GVA

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar funda í hádeginu um framtíð sína innan hreyfingarinnar, en þingmennirnir telja nýsamþykkt lög hreyfingarinnar ganga í berhögg við uppruna, tilgang og stefnu hennar.

Það voru mikil átök á fyrsta landsfundi Borgarahreyfingarinnar sem haldinn var síðast liðinn laugardag. Tekist var á um tillögur að nýjum lögum fyrir hreyfinguna. Að lokum voru samþykkt lög sem þrír þingmenn hreyfingarinnar telja að séu ekki í samræmi við upprunalegan tilgang hreyfingarinnar.

Birgitta Jónsdóttir þingmaður sagði í samtali við fréttastofu að hreyfingin hefði lagt upp með fá en skýr markmið og að þeim uppfylltum hefði stefnan verið að leggja hreyfinguna niður. Eitt af megin stefnumálum Borgarahreyfingarinnar hefði verið persónukjör á öllum sviðum samfélagsins. Hreyfingin beitti sér þess vegna fyrir stjórnarskrárbreytingum og breytingum á lögum um kosningar til Alþingis og lýðræðisumbótum ýmis konar.

Birgitta segir ekki liggja fyrir hvort þingmennirnir segi skilið við hreyfinguna. Hún og hinir þingmennirnir tveir ætli að taka sér þann tíma sem þurfi til að komast að niðurstöðu. Þá muni þau að vinna að undirbúningi þingmála og verkefnalista fyrir veturinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×