Innlent

Fjöruborð við Vík langt innan marka

Fjaran við Vík. Landbrot undan ágangi sjávar er stöðugt við Vík í Mýrdal og segjast heimamenn orðnir uggandi.
Fréttablaðið/Valli
Fjaran við Vík. Landbrot undan ágangi sjávar er stöðugt við Vík í Mýrdal og segjast heimamenn orðnir uggandi. Fréttablaðið/Valli

„Fari saman stórstreymi, háflóð, hvassviðri og þung alda eru mannvirki fyrir hundruð milljóna í stórhættu,“ segir sveitarstjórn Mýrdalshrepps og kveðst hafa sýnt einstakt langlundargeð í að bíða eftir endurbótum á sjóvarnar­garði við Vík. Að sögn Mýrdælinga hefur sífellt brotið af landinu og fjöruborðið nálgast nú Vík. Opinberir aðilar gerðu áætlun um sjóvörn við Vík árið 1994.

„Þá voru sett viðmiðunarmörk um hvenær skyldi ráðist í sjóvarnir og miðuðust þau mörk við að verja mannvirki áður en þau væru í yfirvofandi hættu. Landbrotið hefur að meðaltali verið sjö til tíu metrar á ári undanfarin ár. Á árunum 1990-1993 var landbrotið allt að 42 metrar á ári að meðaltali. Fjöruborðið er nú komið langt inn fyrir viðmiðunarmörk án þess að fjármagn hafi verið tryggt í framkvæmdina,“ segir í ályktun sveitarstjórnar­innar.

Í bréfi til Mýrdalshrepps kemur fram að fjármögnun sjóvarnargarðs við Vík verði rædd við endur­skoðun samgönguáætlunar sem nú standi yfir. Bréfið var rætt á síðasta sveitarstjórnarfundi. „Á undan­förnum árum hefur orðið umtalsvert eignatjón vegna sandfoks sem erfiðara hefur reynst að hemja eftir því sem landrými minnkar. Sveitarstjórn lýsir fullri ábyrgð á hendur samgönguráðuneyti og ríkisstjórn verði ekki tryggt að framkvæmdir hefjist þegar á fyrri hluta ársins 2010.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×