Erlent

Ferrari-safn í smíðum í Modena

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Safnið er farið að taka á sig mynd en stingur óneitanlega í stúf við næsta umhverfi sitt.
Safnið er farið að taka á sig mynd en stingur óneitanlega í stúf við næsta umhverfi sitt. MYND/Future Systems

Hinir nafntoguðu sportbílar, sem bera nafn hönnuðarins Enzo Ferrari og gera það gott jafnt í Formúla 1-kappakstrinum sem á götum úti um gervallan heiminn, eru nú um það bil að fá safn reist til heiðurs sér og sögu sinni í Modena þar sem Ferrari fæddist árið 1898.

Ekki er nóg með að fæðingarborgin verði fyrir valinu heldur verður safnið byggt yfir húsið sem Enzo fæddist í á sínum tíma. Safnið verður að sjálfsögðu ekkert slor frekar en bílarnir sem það mun heiðra. Áætlað er að verkið kosti jafnvirði 2,6 milljarða króna en þak safnsins er heiðgult og skínandi og minnir að lögun á sportbíl.

Liturinn er reyndar athyglisverður í ljósi þess að lengi vel var talið að aðeins ein málningardolla væri til í smiðjum Ferrari og innihéldi sú rauða málningu. Það er breska fyrirtækið Future Systems sem hefur veg og vanda af verkinu og áætlar að ljúka því árið 2011.

Spár gera ráð fyrir að safnið laði til sín um það bil 200.000 Ferrari-aðdáendur á ári sem vilja skoða bílana og heiðra minningu meistarans en Enzo Ferrari lést árið 1988, þá níræður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×