Innlent

Brúarsmíði í uppnámi vegna vantrausts á íslenskum bönkum

Brúarsmíði yfir Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi er í uppnámi þar sem verktakafyrirtækið KNH ehf., þarf að staðgreiða fyrir tækjabúnaði þar sem breskt fyrirtæki treystir ekki íslenskum bönkum. Þetta kemur fram á ísfirska fréttavefnum bb.is.

Þar segir að tækjabúnaðurinn sé nauðsynlegur til þess að spenna brúna áður en hún verður steypt. Babb sé komið í bátinn því breska fyrirtækið neitar að stunda viðskipti við Íslendinga nema gegn staðgreiðslu og til þessa hafa þeir ekki tekið gilda kvittun fyrir fyrirframgreiðslunni frá íslenskum banka.

Þetta gerir það að verkum að óvíst er hvort brúin verði opnuð fyrir stærstu ferðmannahelgi ársins, Verslunarmannahelgina. En ætlunin er að opna hana rétt fyrir þá helgi.

Sævar Óli Hjörvarsson framkvæmdastjóri KNH segir sitt fyrirtæki vera búið að borga fyrir þjónustuna, en ekkert hafi heyrst frá fyrirtækinu og því ekki vitað hvenær von er á starfsmanninum og búnaðinum.

„Það tekur fimm til sjö daga fyrir peninga að berast á leiðarenda í gegnum bankakerfið eins og það er í dag. En við fáum ekki einu sinni svör frá fyrirtækinu fyrr en það er búið að telja peningana," segir Sævar Óli.

Þegar stangirnar í brúna, sem nú þarf að strekkja, voru keyptar af breska fyrirtækinu á síðasta ári, voru þær sendar til landsins áður en þær voru greiddar.

Nú er KNH stillt upp við vegg af breska fyrirtækinu, að sögn Sævars Óla. „Það er ekkert traust á Íslendingum í dag. Ísland er bara algjört núll úti í heimi," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×