Íslenski boltinn

Kristján: Þetta var ekki nógu gott

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson Mynd/Víkurfréttir

Keflvíkingar sóttu eitt stig til Grindavíkur í kvöld þegar þeir mættu heimamönnum í nágrannaslag. Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var frekar ósáttur í leikslok.

"Fyrri hálfleikurinn er slakur hjá okkur. Seinni hálfleikurinn er aðeins skárri en samt var þetta ekki nógu gott. Við fengum hálffæri og við fengum dauðafæri sem við nýttum ekki. Það voru göt hjá þeim sem okkur tókst ágætlega að vinna úr, en ég hefði viljað sjá aðeins betri varnarleik hjá liðinu," sagði Kristján í samtali við Vísi eftir leik.

"Við þurfum að bæta gæðin í því sem við erum að gera. Í fyrri hálfleik voru sendingarnar oft á tíðum afleitar á sóknarhelmingnum. Varnarleikurinn var að einhverju leyti í lagi en það eru samt ákveðnir hlutir í varnarleiknum sem þurfa að vera betri. Hornin okkar eru til dæmis ekki nógu góð hjá okkur. Við fáum oft á okkur hraðaupphlaup eftir hornspyrnur og það er líka hluti af þessu vandamáli," bætti Kristján við.

Símun Samuelsen var kominn aftur í sína gömlu stöðu á vinstri kantinum, en hann hefur mest spilað á miðjunni í sumar eftir að Hólmar Örn Rúnarsson meiddist í upphafi móts.

"Það hentaði ágætlega í þessum leik að hafa hann úti á kanti. Þá er hann heldur ekki í eins mörgum návígjum sem er ágætt útaf meiðslunum sem hann hlaut í seinasta leik. Þau urðu samt til þess að hann gat ekki spilað allan leikinn í kvöld," sagði frekar ósáttur þjálfari Keflavíkur í leikslok.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×