Enski boltinn

Wenger bjóst ekki við Eduardo svona sterkum til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eduardo fagnar markinu með félögum sínum.
Eduardo fagnar markinu með félögum sínum. Mynd/GettyImages

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hrósaði mikið brasilíska Króatanum Eduardo eftir 3-0 bikarsigur Arsenal á Burnley. Eduardo skoraði eitt marka Arsenal á frábæran hátt en hann bar fyrirliðabandið í leiknum.

"Ég bjóst ekki við hann kæmi svona sterkur til baka. Þetta er vitnisburður um hans einstaka persónuleika. Hann kvartaði aldrei og sýndi fáséð fordæmi," sagði Wenger en Eduardo er kominn á fulla ferð eftir að hafa fótbrotnað mjög illa á síðasta tímabili.

"Eduardo kemur alltaf á óvart og er mjög klókur leikmaður. Ég hafði aldrei séð hann skora svona mark," sagði Wenger um markið einstaka. "Þetta var svona mark sem menn skora á ströndinni. Hann skoraði þetta mark á tilfinningu og sýndi að hvert sekúndubrot skiptir máli," sagði Wenger í léttum tón og vitnaði þá í bakgrunn Eduardo í strandaboltanum í Brasilíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×