Lífið

Blásið til veislu á Patreksfirði

Ari Alexander á magnaðar myndir frá búsáhaldabyltingunni en brot úr heimildarmynd hans, Aumingja Ísland, verður sýnt á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg.
Ari Alexander á magnaðar myndir frá búsáhaldabyltingunni en brot úr heimildarmynd hans, Aumingja Ísland, verður sýnt á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg.

Tvö undanfarin ár hefur áhugafólk um heimildarmyndir og kvikmyndagerðarmenn flykkst til Patr­eksfjarðar. Ástæðan er einföld: heimildarmyndahátíðin Skjaldborg.

Árið í ár er engin undantekning. Þrjátíu heimildarmyndir af öllum stærðum og gerðum, um allt milli himins og jarðar, verða sýndar á hátíðinni. Sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar verður Þorfinnur Guðnason en heimildarmynd hans og Andra Snæs Magnasonar varð fyrir skemmstu aðsóknarmesta heimildarmyndin í sögu Íslands. Sýndar verða allar myndir Þorfinns á hátíðinni, þeirra á meðal er löngu horfin mynd sem aldrei hefur komið fyrir sjónir fólks áður en hún heitir Grandarar og er um lífið og tilveruna á Grand Rokki.

Töluverð gróska hefur reyndar verið í heimildarmyndagerð að undanförnu; Sólskinsdrengur Friðriks Þórs Friðrikssonar naut mikillar hylli og var, allt þar til Draumalandið var frumsýnt, aðsóknarmesta heimildarmyndin. Heimildarmyndagerðarmenn fóru margir hverjir á fullt þegar blásið var til búsáhaldabyltingar við Austurvöll í janúar á þessu ári og verður sýnd stutt stikla úr einni þeirra; Aumingja Ísland eftir Ara Alexander. „Þetta er náttúrulega ekki bara um byltinguna, eina og sér, heldur líka af hverju þetta hrun varð,“ segir Ari sem stefnir að því að frumsýna myndina seint í haust.

„Annars heyrist manni bara á fólki að það sé önnur bylting í vændum, þannig að þetta er kannski bara endalaust.“

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær er Ari einn fárra sem á lifandi myndir af því þegar táragasinu var beitt á Austurvelli. Hann á jafnframt nokkuð einstæðar myndir af harkalegu viðmóti lögregluþjóns í garð mótmælanda þegar byltingin stóð sem hæst. „Auðvitað eru góðir menn í lögreglunni en manni fannst þetta nokkuð brútalt og blóðugt.“ Leikstjórinn nýtur liðsinnis góðra manna, meðal þeirra eru Jón Proppé, Friðrik Þór Friðriksson og svo hagfræðingurinn Magnús Árni Skúlason og rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson. Ari kveðst hafa reynt að fá hina svokölluðu útrásarvíkinga í viðtöl.

„Því auðvitað hef ég mína sýn á þessa sögu en að sjálfsögðu vil ég leyfa fólki að svara fyrir sig,“ segir Ari en auðjöfrarnir hafa verið frekar tregir í taumi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.