Innlent

Borginni tókst að skera niður um 2,3 milljarða

Frá borgarstjórn Reykjavíkur.
Frá borgarstjórn Reykjavíkur.
Tillaga að endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 var lögð fram í borgarráði í dag. Endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 hófst strax í byrjun janúar með það að markmiði að mæta 2,3 milljarða króna hagræðingarkröfu.

Í fréttatilkynningu frá skrifstofu borgarstjóra kemur fram að á þriðja þúsund starfsmanna hjá Reykjavíkurborg tóku þátt í vinnu við endurskoðun fjárhagsáætlunar. Fram hafi komið um 1.500 hugmyndir frá starfsfólki um hagræðingu í rekstri borgarinnar. Af þessum hugmyndum hafi orðið til 300 umbótaverkefni, sem séu þegar komin í farveg. Stór hluti þeirra sé þegar kominn með fjárhagsleg markmið sem birtist í tillögu að endurskoðun fjárhagsáætlunar.

Í tilkynningunni frá Reykjavíkurborg kemur fram að sett markmið við endurskoðun fjárhagsáætlunar hafi náðst, það er að hagræða um rúma 2,3 milljarða króna í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun og sameiginlegan vilja borgarstjórnar um að standa vörð um grunnþjónustu Reykjavíkurborgar, störf starfsmanna og gjaldskrár í samræmi við aðgerðaráætlun borgarstjórnar frá 7. október síðastliðnum.

„Fyrir tilstuðlan frábærs starfsfólks Reykjavíkurborgar hafa markmið um að standa vörð um grunnþjónustu borgarinnar, störf starfsfólks og gjaldskrár náðst. Það er nýmæli í íslenskri stjórnsýslu að svo margt starfsfólk komi að vinnu við endurskoðun fjárhagsáætlunar og fái tækifæri til að leggja sitt af mörkum við að gera borgarreksturinn sem hagkvæmastan. Þetta minnir okkur á að það er allt hægt þegar allir leggjast á eitt," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri af þessu tilefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×