Innlent

Formenn VG og Samfylkingar bjartsýnir

Áframhaldandi stjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ræðst af því hvort samkomulag næst í Evrópumálum. Formaður Vinstri grænna telur meiri líkur á því en minni að stjórnin lifi. Hann hefur ekki áhyggjur af yfirlýsingum Atla Gíslasonar né þingmanna Samfylkingarinnar. Forsætisráðherra segir æskilegt að ný stjórn hafi verið mynduð áður en Alþingi kemur saman.

Þingflokkar stjórnarflokkanna komu saman til fundar um klukkan hálf tvö í dag en nú hefur sú breyting orðið á stöðu þeirra að þeir mynda ekki lengur minnihlutastjórn, þar sem þeir hafa nú meirihluta Alþingis á bakvið sig. Jóhanna sagði mikinn samhljóm hafa verið í hinum nýja þingflokki.

„Ég fékk umboð til að leiða stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar og Vinstri grænna til lykta," segir Jóhanna sem er bjartsýn að niðurstaða náist í viðræðunum.

Samkvæmt lögum þarf Alþingi að koma saman innan tíu vikna frá kosningum en Jóhanna sagði ekki ljóst hvenær Alþingi kæmi saman, en hún vonaði að það gæti orðið innan þriggja vikna. Hún leggi mikla áherslu á Evrópumálin.

„Þannig að ég vona að við sjáum til lands í því að við fáum niðurstöðu í þetta mál svo við getum rætt önnur mál," segir Jóhanna. Önnur mál séu auðleystari.

Af þessu viðtali loknu var Jóhanna rokin út á Bessastaði til að gera forseta Íslands grein fyrir stöðu mála. Þangað kom hún um klukkan fjögur og átti tæplega klukkustundarfund með forsetanum. Forsetinn sagði ríkisstjórnina nú hafa meirihluta þjóðarinnar á bakvið sig.

Forystumenn flokkanna komu svo saman í Norræna húsinu um klukkan fimm, þar sem áframhaldandi stjórnsamstarf var rætt, en sérstakur starfshópur þeirra um Evrópumál tekur einnig til starfa í dag eða á morgun. Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti að fela formanni og varaformanni að hefja stjórnarmyndunarviðræður og stuðning við núverandi ríkisstjórn.

Atli Gíslason þingmaður Vinstri grænna sagði í hádegisfréttum okkar að ef Samfylkingin stæði hörð á Evrópusambandsaðild, ætti hún að snúa sér annað. Steingrímur telur ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af yfirlýsingum hans né einstakra þingmanna Samfylkingarinnar.

„Já, ég tel tvímælalaust að þetta gangi vel hjá okkur. Ég treysti bara á það," segir Steingrímur spurður hvort hann telji að flokkarnir nái saman um myndun ríkisstjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×