Lífið

Kærasti Jóhönnu hélt ró sinni í Moskvu

Guðrún og kærastinn, Ólafur Ólafsson, ætluðu að fara út að borða í kvöld í tilefni af góðum árangri, blómvöndurinn kemur þegar sigur er í höfn.
Guðrún og kærastinn, Ólafur Ólafsson, ætluðu að fara út að borða í kvöld í tilefni af góðum árangri, blómvöndurinn kemur þegar sigur er í höfn.

„Ég var alveg pollrólegur yfir þessu, þetta var auðvitað hörkuspennandi en ég var alveg handviss um að við værum í síðasta umslaginu," segir Ólafur Ólafsson, kærasti Jóhönnu Guðrúnar Jónsdóttur. Hann er kominn til Moskvu til að styðja við bakið á unnustunni í Eurovision-orrustunni ásamt föður sínum, athafnamanninum Ólafi Björnssyni.

Ólafur bætir því við að spennan hafi tekið mest á móður Jóhönnu sem hafi setið við hlið hans en sjálfur hafi hann haldið ró sinni. „Ég var bara alveg hæfilega spenntur." Aðspurður hvernig föður hans hafi litist á keppnina segir Ólafur að hann hafi, líkt og aðrir Íslendingar, verið nokkuð spenntur. Honum hafi hins vegar verið meinilla við belgíska lagið CopyCat.

Í gær var svo komið að frídegi hjá Eurovision-hópnum og þá var kærkomið tækifæri fyrir parið unga að eyða smá tíma saman. Enda hefur Eurovision-þátttakan átt allan hug Jóhönnu undanfarnar vikur og mánuði. Ólafur kvaðst þó ekki vera búinn að kaupa blóm handa spúsu sinni því hann ætlaði að geyma bestu rósirnar þangað til á laugardaginn. „Þegar hún vinnur þessa keppni," segir Ólafur, alveg sannfærður um íslenskan sigur í Moskvu. Ekki að ósekju. Eins og heyra mátti í útsendingunni í gær var alveg gríðarlegur stuðningur við íslenska lagið og blaðamenn í Moskvu eru ákaflega bjartsýnir fyrir Íslands hönd. „Þetta var bara hálfur sigur, nú förum við bara alla leið."

Þau Ólafur og Jóhanna ætluðu þó að leyfa sér þann munað að fara út að borða saman og fagna þessum áfanga en svo taka við þrotlausar æfingar og undirbúningur fyrir úrslitakvöldið sjálft en Jóhanna verður sjöunda á sviðið á laugardaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.