Innlent

Sendiráðinu í Managua lokað í sumar

Samuel Santos utanríkisráðherra Níkaragva og Sighvatur Björgvinsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands svara spurningum fréttamanna að fundi loknum.
Samuel Santos utanríkisráðherra Níkaragva og Sighvatur Björgvinsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands svara spurningum fréttamanna að fundi loknum.

Samuel Santos utanríkisráðherra Níkaragva og Sighvatur Björgvinsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands áttu fund í Managua á þriðjudag vegna þeirrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að loka sendiráði Íslands í landinu sem jafnframt er umdæmisskrifstofa Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Auk þeirra sátu fundinn Valdrack Jaentschke aðstoðarutanríkisráðherra þróunarmála, Roberto Leal framkvæmdastjóri skrifstofu Evrópumála, Geir Oddsson umdæmisstjóri ÞSSÍ í Níkaragva og Gerður Gestsdóttir verkefnastjóri félagslegra verkefna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þróunarsamvinnustofnun.

Í lok fundarins var birt eftirfarandi sameiginleg yfirlýsing:

Utanríkisráðuneyti ríkisstjórnar sátta og þjóðareiningar og sendiráð Íslands í Níkaragva gera heyrin kunnugt að vegna þeirra áhrifa sem alþjóðlega fjármálakreppan hefur haft á efnahag Íslands hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að loka sendiráði sínu í Managua frá og með 1. ágúst 2009.

Ríkisstjórn Íslands mun standa við allar skuldbindingar sínar gagnvart Níkaragva í samræmi við rammasamkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Níkaragva sem undirritað var í Managua 26. júní 2006 og staðfest af þinginu 2007.

Þróunarsamvinna Níkaragva og Íslands styrktist árið 2008 þegar fyrsti samráðsfundur landana var haldinn. Aðstoð Íslands hefur verið í geirum orku, menntunar og heilbrigðismála.

Níkaragvanska þjóðin og ríkisstjórn hennar þakkar vinaþjóð sinni á Íslandi fyrir þá samstöðu sem hún hefur sýnt á þessum árum, sem við munum halda áfram að þróa í diplómatískum samskiptum okkar, bæði tvíhliða og marghliða. Á sama tíma óskum við þess að sem fyrst finnist lausn á þeim efnahagslegu vandamálum sem þessi vinaþjóð stendur frammi fyrir og óskum þess að í nálægri framtíð getum við aftur notið stuðnings og samvinnu við Ísland.

Managua, 24. mars 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×