Enski boltinn

Barry vill forðast aðra sápuóperu

Nordic Photos/Getty Images

Margt bendir til þess að stuðningsmenn Aston Villa þurfi að fylgjast með sápuóperu í kring um miðjumanninn Gareth Barry í sumar.

Landsliðsmaðurinn enski var orðaður við Liverpool í allt fyrrasumar en svo fór á endanum að hann fór ekki frá Birmingham eftir að þeir rauðu voru ekki tilbúnir að borga fyrir hann uppsett verð.

Barry vill skiljanlega forðast annað eins vesen í sumar, en bresku blöðin eru þegar farin að orða hann við Liverpool á ný.

"Ég er að vona að ég nái að höndla þetta betur í sumar af fenginni reynslu. Það yrði vanvirðing við stuðningsmennina að vera að hugsa um eitthvað annað en síðustu leikina í deildinni á þessum tímapunkti," sagði Barry í samtali við Birmingham Mail.

"Ég þarf að taka ákvörðun í sumar og hún verður ekki auðveld, en ég er þó viss um að þetta verður ekki sama langdregna sagan og síðast. Ég hef ekki áhyggjur af þessu, ég veit hvað ég þarf að gera, þetta er partur af leiknum," sagði Barry.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×