Innlent

Tekist á um bæjarstjórastólinn í Kópavogi

Valdabarátta hefur blossað upp milli tveggja bæjarfulltrúa sjálfstæðismanna í Kópavogi um hver taki við bæjarstjórastarfinu af Gunnari Birgissyni, sem boðist hefur til að víkja til að meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks haldi.

Hart hefur verið sótt að Gunnari eftir að skýrsla endurskoðendafyrirtækisins Deloitte, um viðskipti Kópavogsbæjar og fyrirtæksins Frjálsrar miðlunar sem er í eigu dóttur Gunnars og eiginmanns hennar, var birt í byrjun vikunnar. Fulltrúaráðs Framsóknarflokksins fundaði um málið í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum fréttastofu kynnti Ómar Stefánsson oddviti framsóknarmanna þar niðurstöðu sem hann og Gunnar höfðu náð saman um og fól í sér að Gunnar myndi víkja úr bæjarstjórastólnum og annar úr röðum sjálfstæðismanna taka við.

Bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins funduðu í dag um málið og hafa samkvæmt heimildum fréttastofu ekki getað komið sér saman um hver taki við af Gunnari. Tveir úr hópnum vilja bæjarstjórastólinn þeir Gunnsteinn Sigurðsson og Ármann Kr. Ólafsson. Gunnsteinn skipaði annað sæti á lista flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum en Ármann þriðja sætið og á hvorugur auðvelt með að una því að hinn fái stólinn. Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi kemur saman til fundar á mánudaginn vegna málsins og er ekki búist við að niðurstaðan verði ljós fyrr en eftir þann fund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×