Erlent

Sendi 14.528 sms á einum mánuði – fékk 440 síðna símreikning

Hinum 45 ára gamla Greg Hardesty brá heldur betur í brún þegar hann fékk símreikning þrettán ára gamallar dóttur sinnar. Reikningurinn var 440 síður og þar kom fram að dóttir hans hefði sent 14.528 sms skilaboð á einum mánuði. Pabbinn hélt að um mistök væri að ræða.

„Fyrst þegar ég sá þetta hló ég bara og hugsaði að þetta væri klikkun og ekki hægt," sagði faðrinn í samtali við fréttavefinn tgdaily.

„Ég vippaði því upp vasareikninum til þess að sjá hvort þetta væri mannlega mögulegt," sagði pabbinn sem komst að því að svo væri, tæplega þó.

Hin þrettán ára gamla Reina hefði þurft að senda 484 sms skilaboð á dag, eða eitt á hverjum tveimur mínútum allan sólarhringinn.

Þegar faðirinn spurði; „hverjum ertu eiginlega að senda öll þessi skilaboð, öllum skólanum?" sagði hún: „Margir af mínum vinum senda sms frítt. Ég er eiginlega alltaf að senda þeim skilaboð."

Símasamningur stúlkunnar kvað á um ótakmörkuð sms skilaboð fyrir 30 dollara á mánuði. Ef hún hefði verið með hefðbundin reikning hefði hún þurft að borga tæpa 3 þúsund dollara.

Í ljósi þessa hefur faðirinn og fyrrum eiginkona hans nú bannað dótturinni að senda sms skilaboð eftir kvöldmat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×