Enski boltinn

Wenger ánægður

Nordic Photos/Getty Images

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal var kátur með frammistöðu hans manna í 2-0 sigrinum á Middlesbrough í dag. Hann hlakkar mikið til að mæta Manchester United í næstu viku.

"Ég er mjög ánægður. Liðið er að verða sterkara og sterkara og er að sýna ákveðin þroskamerki. Það var gaman að sjá spilamennskuna í dag og ég tek marga jákvæða hluti út úr leik liðsins í dag," sagði Wenger.

Arsenal missti franska varnarmanninn Mikael Silvestre meiddan af velli í dag, en Wenger er ekki viss hvort hann nær leiknum gegn United í Meistaradeildinni í næstu viku.

"Við verðum að sjá til á morgun og þriðjudag," sagði Wenger, en bætti við að hann hefði ekki aðrar áhyggjur af meiðslum fyrir leikinn í næstu viku. Hann segir Arsenal ekki ætla að pakka í vörn á móti United á miðvikudaginn.

"Við reynum alltaf að skora mörk hvar sem við erum og við munum spila til sigurs. Þessi lið þekkjast vel en ég á von á mjög skemmtilegum leik," sagði Wenger í samtali við Sky.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×