Innlent

Eðlilega staðið að kaupum á ráðgjöf

Í kjölfar hrunsins Geir H. Haarde stóð fyrir kaupum á sérfræðiþjónustu fyrir um 300 milljónir króna vegna falls bankanna. fréttablaðið/anton
Í kjölfar hrunsins Geir H. Haarde stóð fyrir kaupum á sérfræðiþjónustu fyrir um 300 milljónir króna vegna falls bankanna. fréttablaðið/anton

Forsætisráðuneytið keypti sérfræðiþekkingu og ráðgjöf fyrir um 300 milljónir króna í kjölfar bankahrunsins á liðnu hausti.

Samið var við átta aðila – einstaklinga og fyrirtæki – sem unnu misumfangsmikil og -kostnaðarsöm verkefni.

Þeirra kostnaðarsamast var vinna bresku lögfræðistofunnar Lovells LLP sem veitti ráðgjöf vegna hugsanlegra málaferla ríkisins við bresk stjórnvöld og aðstoð vegna samskipta við Eftirlitsstofnun EFTA. Ekki varð af málaferlum.

Eftir að Jóhanna Sigurðardóttir tók við embætti forsætisráðherra óskaði hún eftir yfirferð Ríkisendurskoðunar á fyrirliggjandi verksamningum.

Starfsmenn Ríkisendurskoðunar ræddu við starfsmenn forsætisráðuneytisins um téða samninga og kynntu sér margvísleg gögn þeim tengd.

Að mati stofnunarinnar gerði ráðuneytið fullnægjandi grein fyrir ákvörðunum sínum og gerir hún ekki athugasemdir við mat þess á þörf fyrir utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu.

Ríkisendurskoðun telur að nægileg rök hafi legið fyrir því að bjóða ekki út viðkomandi verk enda falli þau undir undantekningarákvæði laga um útboð. Verkkaupin hafi verið algerlega nauðsynleg vegna aðkallandi neyðarástands sem stafaði af ófyrirsjáanlegum atburðum. Því hafi verið nauðsynlegt að sneiða hjá almennu útboði. „Ljóst er að atburðarás var mjög hröð, þörfin brýn og mjög erfitt hefði verið við þær aðstæður að bjóða út kaup á ráðgjöf, ekki síst þar sem nauðsynlegt var talið að leita til erlendra aðila,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×