Erlent

Landræki biskupinn kominn til Bretlands

Richard Williamson við komuna til Bretlands í dag.
Richard Williamson við komuna til Bretlands í dag. MYND/AP
Breski biskupinn sem hafnar því að helför gyðinga hafi átt sér stað kom til Bretlands í dag. Hann var gerður landrækur frá Argentínu.

Richard Williamson neitaði að svara spurningum fréttamanna við komuna til Lundúna. Í flugstöðinni var hann í fylgd fjölda lögreglumanna og lífvarða sem vörðu hann fyrir ágangi fjölmiðla.

Williamson hefur valdið miklu umróti innan kaþólsku kirkjunnar og skaðað verulega samband hennar við gyðinga. Hann sagði í viðtali við sænska sjónvarpsstöð að Þjóðverjar hefðu aldrei notað gasklefa við að útrýma gyðingum og að tölur látinna hefðu verið stórlega ýktar.

Það jók enn reiði gyðinga að Benedikt páfi aflétti nýlega bannfæringu af Williamson, fyrir aðrar sakir þó. Páfi segir að sér hafi ekki verið kunnugt um skoðanir biskupsins og hefur skipað honum að biðjast afsökunar.

Williamson segir hinsvegar að hann byggi skoðanir sínar á eigin rannsóknum og hann geti ekki beðist afsökunar nema eftir að hafa endurskoðað þær rannsóknir. Og þá aðeins ef hann komist að annarri niðurstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×