Lífið

Mun ekki endast ævina til að biðja alla afsökunar

Annþór Kristján Karlsson er þrjátíu og þriggja ára gamall og segist vera með meistarapróf í glæpum. Hann afplánar nú dóm fyrir fíkniefnainnflutning á Litla-Hrauni en segist breyttur maður. Hann lærir spænsku og ætlar að flytja til Spánar að afplánun lokinni. Annþór segist ekki endast ævin til þess að biðja alla þá sem hann hafi brotið á afsökunar en hann var í viðtali við Ísland í dag í kvöld.

Annþór segir brotaferil sinn hafa byrjað strax þegar hann var fimm ára gamall á róló, þar hafi hann veirð ofbeldishneigð frekjudolla. „Ég byrjaði svo í glæpum þegar ég var ellefu ára gamall og fór svo í drykkju 13-14 ára og eftir það á fullt í óreglu," sagði Annþór.

Hann sagðist ekki geta nefnt það versta sem hann hefði gert því það væri svo margt.

„Ég hef gert margt ljótt í gegnum tíðina það er ekki hægt að hylja yfir það. Ég var í öllu sem var ólöglegt. Þegar maður er í þessu kemur þessi réttlætiskennd upp í manni og maður réttlætir hlutina fyrir sjálfum sér og það er það sem er sjúkt. Þessi rændi þessu af manni og því á hann skilið að vera laminn í klessu, þannig virkar hausinn hjá manni því hann er ekki að virka eðlilega," sagði Annþór sem situr nú í fangelsi í þriðja skipti á ævinni.

Ber ábyrgð í glæpaheiminum

Hann sagði að nú fyrst langi sig að fara nýjar brautir í lífinu. „Þegar ég verð alveg laus fer ég úr landi því ég hef ekki þann kost að búa á Íslandi. Ef ég ætla að snúa við blaðinu og fara í rekstur mun þetta alltaf fylgja mér og líka þessi ábyrgð sem fylgir glæpaheiminum," sagði Annþór.

„Ef það er eitthvað vesen og það á að lemja einhvern sem gerði einhverjum eitthvað þá er alltaf leitað til mín og spurt hvort það sé í lagi. Þegar uppi er staðið er maður kominn inn í miðdepilinn á fullt af málum án þess að vilja koma nálægt þeim," sagði Annþór sem heldur því fram að AA-samtökin hafi hjálpað sér.

„Það hefur gjörbreytt lífi mínu því ég sá mig aldrei sem alkóhólista. Í mínum augum voru þeir bara aumingjar sem gátu ekki dópað og drukkið nógu mikið. Ég hef síðan verið að vinna þessa sporavinnu og við það hefur orðið stór viðhorfsbreyting hjá mér."

Langar til Spánar

Annþór er nú formaðru Afstöðu, félags fanga á Litla-hrauni og sagðist hafa tekið það starf að sér vegna þess að honum hafi langað til þess. „Áður fyrr hefði ég aldrei gert það nema ég hefði fengið borgað fyrir það og grætt eitthvað á því."

Hann segir engann þurfa að hafa trú á því að hann muni breyta um lífsstíl. „Það þarf enginn að trúa mér, það er nóg að ég viti það sjálfur og ég er ekki að biðja um neina vorkun."

Annþór sagðist sjá eftir mörgu og taldi að mikill tími myndi fara í að bæta fyrir misgjörðir sínar.

„Mig langar að biðja fullt af fólki afsökunar en mun líklega ekki endast ævin til þess. Ég vona hinsvegar að ég komi betri maður héðan út. Ef ég verð edrú þá mun mér takast það," sagði Annþór sem sér sjálfann sig í iðnaðarbransanum á Spáni í framtíðinni.

„Mig langar bara í ylinn og svo heillar spænskan mig þó ég kunni hana ekki, nú er ég hinsvegar kominn í skóla og er að læra hana þar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.