Innlent

Brotist inn á kosningaskrifstofu sjálfstæðismanns

Haukur Þór Hauksson
Haukur Þór Hauksson

Haukur Þór Hauksson frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi varð fyrir því óláni í nótt að brotist var inn á kosningaskrifstofu hans við Hlíðarsmára í Kópavogi. Þjófarnir voru allt annað en snyrtirlegir í umgengni því risastór grjóthnullungur fékk að fljúga inn um glugga skrifstofunnar. Einni fartölvu var stolið.

„Það er kaldhæðni örlaganna að sama dag og það birtist grein eftir mig um mikilvægi þess að skera ekki niður löggæslu og þörf á að bæta úr fangelsismálum og að brotamenn sem bíði afplánunar gangi um götur þá skuli vera brotist inn á kosningaskrifstofuna mína.," segir Haukur sem býður sig fram í fjórða sæti í prófkjörinu.

Haukur segir að þjófarnir hafi greinilega farið þarna um í miklum flýti og náð að grípa eina fartölvu. „Ég var orðinn hálf þreyttur í gærkvöldi og tók hana því ekki með heim, eins og ég geri venjulega. Hún var tiltölulega nýkomin úr viðgerð og því var ekkert mikið inni á harðadrifinu á henni, allavega ekkert sem þolir ekki dagsljósið," segir Haukur nokkuð léttur á því.

Haukur sem er tiltölulega óþekktur í stjórnmálum berst við nokkra sitjandi þingmenn í prófkjörinu. Má þar nefna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Bjarna Benediktsson, Jón Gunnarsson og Ármann Kr. Ólafsson.

„Ég held nú að nafnið hafi komist ágætlega til skila á fundum og svona en ég er náttúrulega að keppa við marga sitjandi þingmenn," segir Haukur.



Af vettvangiMYND/DAVÍÐ ÖRN

Haukur vonar þó að eftirspurnin eftir nýliðun í flokknum skili sér í prófkjörinu og segist hafa fundið fyrir því hjá fólki.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fer fram á laugardaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×