Innlent

Harmar kæru Nova - vill samræma verðskrár

Sigmar Vilhjálmsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Tals.
Sigmar Vilhjálmsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Tals.

Sigmar Vilhjálmsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Tals, harmar að Nova ætli að kæra Tal vegna greinar sem hann skrifaði í Morgunblaðið. Gjaldskrár símafyrirtækjanna eru ógegnsæjar að mati Sigmars og hann kallar eftir því að þær verði samræmdar.

Í tilkynningu frá Nova segir að í grein Sigmars sé staðhæft að sá sem hringi í Nova símanúmer þurfi að greiða fyrir símtalið þó ekki sé svarað í símann. Nova segir að þetta sé rangt.

,,Ég ítreka þá leiðréttingu sem ég hef þegar sent frá mér og harma að mistök hafi átt sér stað en heimildir mínar voru komnar úr þjónustuveri Nova," segir Sigmar. Honum þykir miður að þetta atriði í greininni sé orðið aðalatriðið. Það hafi ekki verið ætlunin með greininni.

Verðskrár verði samræmdar

Mesti gallinn við fjarskiptabransann hér á landi er ógegnsæi, að mati Sigmars. Hann tekur sem dæmi að þegar bensínverð hækki um tvær krónur viti allir hvað felst í slíkri hækkun.

,,En þegar að Síminn hækkar sína verðskrá um 6,1% hefur maður ekki hugmynd um hvað það er mikil hækkun í krónum talið. Síminn hefur hækkað verðskrá sína fimm sinnum á seinustu fimmtán mánuðu og það virðist hafa farið fram hjá öllum."

Sigmar kallar eftir því að verðskrár símafyrirtækjanna verði samræmdar því enginn leið er fyrir neytendur til að gera verðsamanburð eins og staðan er núna. Á meðan svo er eru stóru aðilarnir sáttir, segir Sigmar.


Tengdar fréttir

Nova kærir Tal

Farsímafyrirtæið Nova hefur ákveðið að kæra samkeppnisaðila sinn Tal fyrir meiðandi ummæli. Sigmar Vilhjálmsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Tals, staðhæfði í grein í Morgunblaðinu í dag að sá sem hringir í Nova símanúmer þurfi að greiða fyrir símtalið þó ekki sé svarað í símann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×