Erlent

Afríska þjóðarráðið vann í fjórða skipti

Dansað af sigurgleði. Jacob Zuma, leiðtogi ANC og forsetaefni, tekur sporið með tónlistarfólki fyrir utan höfuðstöðvar flokksins í Jóhannesarborg.fréttablaðið/ap
Dansað af sigurgleði. Jacob Zuma, leiðtogi ANC og forsetaefni, tekur sporið með tónlistarfólki fyrir utan höfuðstöðvar flokksins í Jóhannesarborg.fréttablaðið/ap

 Afríska þjóðarráðið (ANC), sem gnæft hefur yfir suður-afrísk stjórnmál allt frá falli aðskilnaðarstefnunnar fyrir hálfum öðrum áratug, vann fjórða stórsigur sinn í röð í þingkosningum sem fram fóru í landinu á miðvikudag. Þetta kom í ljós þegar bráðabirgðaúrslit voru birt í gær.

Útlit var þó fyrir að ANC tapaði meirihlutanum á fylkisþingi Vestur-Höfða, þar sem aðalvínræktar- og ferðamennskusvæði landsins er að finna. Þetta fylgis­hrun má rekja til andstöðu við ANC meðal kjósenda af blönduðum kynþætti þar um slóðir; þeir skynja ANC sem flokk svartra sem mismuni fólki af öðrum kynþáttum.

Samkvæmt bráðabirgðaúrslitum þegar 14,5 milljónir eða um 80 prósent greiddra atkvæða höfðu verið talin, hafði ANC fengið 66,91 prósent. Þjóðþingið kýs forseta lýðveldisins, sem tryggir hinum umdeilda leiðtoga Þjóðarráðsins, Jacob Zuma, kjör í embættið, en það á að fara fram í maí.

Lýðræðisbandalagið, sem að uppistöðu til er flokkur hvítra, styrkir lítið eitt stöðu sína frá síðustu kosningum og fær nú 15,62 prósent atkvæða. Klofningsframboð úr ANC (Congress of the People) fær 7,53 prósent. Aðrir flokkar koma ekki þingmönnum að.

Úrslitin sýna að Lýðræðisbandalagið fær hreinan meirihluta í Vestur-Höfðafylki. Flokkurinn hefur lagt sig fram um að höfða til íbúa í héraðinu af blönduðum uppruna, en fólk sem flokkast í þann þjóðfélagshóp er um helmingur íbúa fylkisins. Svartir eru um þrjátíu prósent og hvítir um átján prósent. Þessi hlutföll eru gerólík meðal­talinu í Suður-Afríku allri, þar sem svartir eru um áttatíu prósent íbúanna og hvítir og kynblendingar um níu prósent hvor hópur.

Í síðustu kosningum árið 2004 fékk ANC 69,69 prósent atkvæða. Fylgi undir því er almennt álitið skilaboð frá kjósendum um að þeir vilji setja flokknum einhver valdmörk. Með því að fá minnst tvo þriðju hluta þingsæta er flokkurinn í aðstöðu til að koma öllum stjórnar­frumvörpum í gegnum þingið, þar á meðal jafnvel róttækustu breytingum á fjárlögum, án þess að stjórnarandstaða fái nokkuð að gert. Tveggja þriðju hluta meirihluti gefur líka vald til að ákveða breytingar á stjórnarskránni.

audunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×